Yfirlýsingaglaði Brown má gjarna koma með yfirlýsingu núna

Eins og flestir viti bornir menn sjá þá eru Íslendingar ekki að lenda í fjármálahremmingum vegna einskærrar heimsku og yfirgangs.  Klárlega hefði ýmislegt mátt betur fara eins og fram hefur komið en megin orsökin er sú fjármálakreppa sem hófst í USA og snertir nú allar fjármálastofnanir svo um munar.  Ásakanir Gordons Brown um óábyrgð íslenskra stjórnvalda blikkna nú við þær fréttir að Royal Bank of Scotland og HBOS verði nú þjóðnýttir.

Yfirlýsingar Brown hafa nú valdið keðjuverkun sem getur haft áhrif á störf yfir 100.000 breskra þegna og afkomu þeirra, auk hluthafa í fyrirtækjunum og sjóðseigendur um allan heim.  Að breska ríkisstjórnin skuli hafa fryst eignir Landsbankans í UK vekur einnig upp spurningar um rétt annara ríkja, fyrirtækja og einstaklinga utan UK sem eiga kröfur í umræddar eignir.  Í fyrstu virðist því eigingirni Brown og ríkisstjórnar hans algjör og tilgangurinn í besta falli vafasamur.


mbl.is Breskir bankar yfirteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar alfarið PR fyrir Ísland

Burtséð frá því sem betur hefði mátt fara hjá Geir og ríkisstjórninni að undanförnu þá tel ég regin mistök að hafa ekki stofnað til kynningarátaks vegna þessara mála.  Á meðan við tökum ekki upp hanskan fyrir okkur sjálf þá rýrnar orðspor Íslands og Íslendinga almennt t.a.m. í UK og Hollandi og verður það seint metið til fjár.  Það er ljóst að það ríkir mikill misskilningur á meðal almennings í þessum löndum, þökk sé hinum yndislega Íslandsvini Gordon Brown.  En við erum líka að horfa uppá aðgerðaleysi stjórnvalda í þessum efnum sem gerir illt verra því þögn er sama og samþykki í hugum margra.
mbl.is Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar bera líka ábyrgð á sínum gjörðum

Fréttaflutningur og nálgun fjölmiðla við atburði síðustu daga er oft á tíðum grátbrosleg.  Settar eru fram fullyrðingar í æsifréttastíl sem klárlega hafa áhrif á aðstæður.  Ég er hræddur um að fjölmiðlar hafi í þessu tilfelli ýtt undir þessa atburðarás sem var með öllu óþörf miðað við stöðu mála, með óraunhæfum getgátum og ásökunum sem oft og tíðum eru byggðar eru á vanþekkingu og misskilningi fréttamanna.  Við eigum marga mjög góða fréttamenn en við eigum líka marga mjög slæma fréttamenn og þeir geta hreinlega verið hættulegir við svona aðstæður.


mbl.is Atburðir í Bretlandi felldu Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stillt upp við vegg...

Persónulega finnst mér það ekki vera hlutverk lífeyrissjóðanna að bjarga málunum alla jafna en þegar ástandið snertir orðið allt þjóðarbúið og hvert mannsbarn á Íslandi og þar með lífeyrissjóðina líka, þá er nauðsyn, ekki einungis þörf. 

Hins vegar tel ég mjög ámælisvert ef lífeyrissjóðirnir setja fram kröfu um að íslenska ríkisstjórnin óski eftir inngöngu í Evrópusambandið ef til aðstoðar þeirra á að koma.  Þar erum við að tala um mun veigameira mál sem snertir líka hvern landsmann og á ekki að taka ákvörðun um í slíku samhengi.

Ég er hræddur um að ef við sækjum um aðild að Evrópusambandinu eins og ástandið er nú, eins og t.a.m. Þorvaldur Gylfason prófessor vill, þá fyrst séum við búin að viðurkenna ósigur og þá fyrst verði krónan verðlaus í hinum stóra heimi fjármálanna og falli neðar en nokkurn gæti órað fyrir.  Tala nú ekki um ef við óskum eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og gjaldþrota þjóð.  Þá verður ástandið verulega skuggalegt.


mbl.is Verða að fallast á skilyrði sjóðanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónarspil

Ekki er allt sem sýnist svo mikið er víst.  Ég er hræddur um að með nýrri borgarstjórn hafi peningarnir í borginni aftur fengið valdið í hendur svo þeir megi gefa af sér enn meiri pening fyrir eigendur sína sem eru undirrótin í þeim stjórnmálafarsa sem við megum horfa uppá í borginni okkar.  Þá er ég að tala um þá aðila sem mestan hag bera af þessum breytingum hvort heldur um fasteignaviðskipti eða virkjanir er að ræða.  Enda kemur það skýrt fram í hinum nýja málefnasamningi þar sem segir orðrétt: "Lóðaúthlutanir til fólks og fyrirtækja undir kjörorðinu Veldu þinn stað halda áfram, með sérstakri áherslu á leiðir til að auðvelda íbúum að byggja og búa í Reykjavík. Markvissari uppbygging verður tryggð t.d með því að Framkvæmda- og eignasviði verði tryggt aukið sjálfstæði og svigrúm.".  Hvaða merkingu hefur þetta í raun?  Þegar sagt er "... auðvelda íbúum að byggja og búa í Reykjavík." er í raun átt við verktaka og fasteignamógúla.  Með þessu á að auðvelda þeim aðilum að fara út fyrir alla ramma núgildandi deiluskipulags í gömlum hverfum til að hámarka hagnaðinn.  Það er nefnilega það sem þeir gera; kaupa upp lóðir í gamla miðbænum í kippum og þrýsta síðan á borgaryfirvöld til að breyta deiliskipulagi til að þeir geti byggt miklu meira og stærra en allir aðrir einfaldlega af því að þeir eiga svo mikla peninga og ætla að vera svo "góðir" við samborgara sína að "bjarga" miðbænum sem þeir sjálfir heimsækja aðeins á menningarnótt og Þorláksmessu ef veður leyfir.

Í ofanálag fremur Óskar pólitískt sjálfsmorð því að í fyrsta lagi hafði hann öll hæstu spilin á hendi en nýtti sér það engan veginn og auk þess mun hann alltaf verða undir í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn eins og venja er með Framsóknarflokkinn og mun sjálfsagt aldrei ná sér á strik eftir þetta samstarf.

Ég hafði ekki mikið álit á Ólafi F. en það hefur aukist töluvert eftir atburði síðustu daga.  Hann stóð þó allavega við sína sannfæringu þar til yfir lauk.  Hann kom sínum baráttumálum í málefnasamninginn og tók borgarstjórastólinn til að tryggja framgöngu í þeim málum sem er meira en Óskar getur sagt.  Þetta segir okkur bara eitt um Sjálfstæðisflokkinn að hann seldi sig mjög ódýrt til þess eins að komast aftur til valda í borginni og það með mjög óheiðarlegum hætti þar sem þeir voru ekki heilshugar á bakvið málefnasamninginn sem gerður var.  Síðan þegar kemur í ljós hversu einhuga Ólafur F. var um að framfylgja honum þá er honum einfaldlega kastað fyrir róða.  En það hefðu Sjálfstæðismenn aldrei gert nema vera nokkuð vissir um aðkomu Óskars að stofnun nýs meirihluta og það er klárt að Geir og Guðni hafa ekki látið sig vanta í það valdatafl.  Að halda annað er einskær einfeldni.


mbl.is Lyklaskipti í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ENIGA MENIGA ...

Við skulum gera okkur grein fyrir því hverjir stjórna í landinu og borginni okkar.  Þegar miklir hagsmunir peningaaflanna eru í húfi þá svífast þau einskis.  Peningar eru nefnilega farnir að flytja fjöll og steypa borgarstjórnum...  ef það gefur góðan hagnað.
mbl.is Hleypir spennu í sambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför að gamla miðbænum

Útrýmingarstefna á gömlum húsum í miðborg Reykjavíkur er orðin verulega umfangsmikil en upphaflega átti að hreinsa aðeins til á Laugaveginum þau hús sem ekki voru umhverfi sínu til sóma.  Ekki er lengur verið að tala um að fjarlægja einungis þau hús sem ekki eiga sér viðreisnar von heldur hús sem eru í ágætis standi og hefur verið vel við haldið í áranna rás.   Í dag horfum við einnig uppá eyðingu Skuggahverfisins nánast á einu bretti sem og stórra svæða á milli Skúlagötu og Laugavegar.  Við verðum að átta okkur á því að hjá eigendum lóðanna snýst þetta því miður um fjárhagslegan hagnað en ekki endanlega heildarmynd í samræmi við umhverfið.  Það er driffjöðurinn í þeirra málaflutningi.

Stór hópur Íslendinga er fæddur og uppalinn í gömlum húsum í þessum borgarhluta og enn búa mjög margir í slíkum húsum og halda þeim vel við borginni og borgarbúm flestum til sóma og yndisauka.  Það sem oft virðist nefnilega gleymast í þessari umræðu er að í miðbænum býr fólk sem aðhyllist það byggðarmynstur sem þar er og einkennist af umræddum 18. og 19. aldar arkitektúr.  Það hlýtur að teljast óeðlilegt að ætla að hreinsa enn fleiri slík hús úr miðbænum til að hliðra til fyrir byggingum sem ekki passa inní það umhverfi og geta allt eins staðið hvar sem er annars staðar án þess að orka tvímælis.  Af hverju í ósköpunum þarf að ráðast á elstu byggð borgarinnar og sögu hennar sem nú þegar á undir högg að sækja? 

Mig langar að snúa dæminu við máli mínu til stuðnings.  Ég er þess fullviss að það þætti skjóta skökku við ef fram kæmi tillaga þess efnis að rífa Mjóddina og hluta neðra-Breiðholts til að rýma fyrir nýju hverfi sem yrði samsett úr gömlum flutningshúsum úr miðbænum.  Hvað þá að höggvið yrði skarð í gömul úthverfi, núverandi hús rifin niður á stangli og ný timburhús með gamla laginu byggð í staðinn.  Það yrði að passa uppá að nýju húsin í gamla stílnum væru alls ekki lík húsunum sem stóðu þar fyrir, ekki úr sama byggingarefni, væru margfalt stærri svo breyta þyrfti deiliskipulagi og notagildi þeirra yrði einnig að vera fullkomlega úr takt við það sem fyrir var til að samlíkingin mín heppnist. 

Við megum líka átta okkur á því að flestir þeir sem standa á bak við þessa aðför að miðbænum eru einstaklingar sem hvorki búa í miðbænum né þekkja hann vel.  Heimsækja hann mögulega á Menningarnótt og Þorláksmessu ef veður leyfir.  Þeir sem vilja ekki sjá gömul hús þurfa ekki að sjá gömul hús frekar en þeir vilja.  Það er mjög óréttlátt að ætlast til þess að miðbænum verði breytt í enn eitt úthverfið með verslunarmiðstöð á kostnað sögulegra bygginga og byggingarsögu borgarinnar og íbúum miðborgarinnar sem heillast af slíkum byggingarstíl og umhverfi, til mikils ama.  Af þeim eigum við nóg.  Við eigum mörg falleg úthverfi og mörg hver hafa sín séreinkenni en öll falla þau undir sama hattinn þegar kemur að  byggðarmynstri og byggingarstíl. 

Því spyr ég: af hverju að fórna eina miðbænum okkar, sérstöðu hans og byggingarsögu til þess eins að búa til eitt úthverfið í viðbót?  Sérstaða gamla miðbæjarins í þessu tilliti hlýtur því að vega þyngra en þörfin fyrir að byggja nýbyggingar sem eru í hrópandi ósamræmi við fyrirætlað umhverfi sitt eins og hvert mannsbarn sér og gætu í raun staðið hvar sem er annars staðar en í gamla miðbænum.  Það þarf ekki 6 ára menntun í arkitektúr til að sjá það.


mbl.is Sjónarhorn beggja verði virt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fara sprengjur "í gang"?

Ég hélt að sprengjur væru sprengdar eða að þær spryngju en færu ekki í gang eins og vél.

Þess utan er fréttin skelfileg og mann hryllir við þeirri hugsun hvað samtökin hafa valdið mörgu saklausu fólki miklu og skelfilegu tjóni í gegnum tíðina.  Það er eitthvað mikið að hjá þessu fólki.


mbl.is Fjórar sprengjur á Norður-Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábærir tónleikar

Þetta voru frábærir tónleikar og skemmti ég og mínir vinir okkur mjög vel.  Það var sérstaklega frábært að heyra lagið "Army of Me" sem er í miklu uppáhaldi hjá mér en efnið af Volta var einnig stórbrotið eins og svo margt sem Björk gerir.

Þetta er frábært framtak og nauðsynlegt að vekja enn athygli á þeim gríðarlegu áformum sem ráðamenn þjóðarinnar hafa um arfleið okkar allra, íslensku náttúruna.  Ýmislegt í þeim upplýsingar sem þarna komu fram kom mér í opna skjöldu og fannst mér hreinlega vera komið aftan að mér.  Ég held að almenningur geri sér ekki fulla grein fyrir umfangi þessara áforma sem geta hæglega gjörbreytt stórum hluta Íslands til frambúðar. 

Takk fyrir mig.


mbl.is Óður til náttúrunnar í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orsök eða afleiðing?

Þetta er spurning um ásetning en klárlega gerðu bankarnir ráðstafanir til að tryggja sig fyrir gengisfalli krónunnar eftir áramótin.  Afleiðingin er síðan klárlega það sem við erum á horfa á í dag og það má því segja að um sjálfheldu sé að ræða.  Enginn vill eiga íslenskar krónur í dag en það þarf hins vegar að minnka framboð á krónunni til að ástandið batni. 

Það eina sem getur bjargað okkur út úr þessu er að auka tiltrú á krónuna en á meðan markmið bankanna er óbreytt þá gerist það seint og ekki virðist ríkisstjórnin vera skárri hvað það varðar.  Hún segist bíða eftir betri tíð, til að geta tekið lán á betri kjörum, til að stuðla að betri tíð... þetta er nú klárlega hringskýring hjá þeim og rökleysa hin mesta en staðan er klárlega ekki auðveld viðfangs ef horft er til framtíðar.  En það er ljóst að áhugi bankanna á Evruvæðingunni er mikill og því má ætla að góðar líkur séu á því að þeir leggi sitt af mörkum til að hún verði tekin upp og slaki því ekki á í stefnu sinni að ýta undir offramboð á íslensku krónunni.  Það gæti hins vegar snúist við hjá bönkunum þegar að fyrirtæki og einstaklingar hætta að geta borgað af erlendu lánunum sínum.  Þá missa bankarnir tekjur og afskriftir aukast og það vilja þeir ekki, sérstaklega ef um stærri viðskiptavini er að ræða.


mbl.is Bankarnir fá 80 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband