Neyðin kennir naktri ...

Þetta finnst mér fyndið eða öllu heldur pínlega fyndið og mér er spurn: hefði Geir H. Haarde sungið á tónleikunum ef fylgi Sjálfstæðisflokksins væri ekki á sömu leið og úrvalsvísitalan?  Nú veit ég ekki hvort Geir kann að syngja eður ei en þetta er í fyrsta skiptið sem hann stígur á stokk fyrir almenning og syngur að því er ég best veit og segir það meira en mörg orð.

Hvað tónleikana áhrærir, þá er framtakið að sjálfsögðu af hinu góða og nauðsynlegt mjög.  Hins vegar tel ég nauðsynlegt að við setjum skýr skil á milli þess af hvaða kynþætti fólk er annars vegar og rétti þess til að koma til landsins, búa hér og starfa.  Hér á ég einfaldlega við að ég tel að við höfum alltaf haft tilhneygingu til að vera hrædd við að gera kröfur um vissa hluti ef um fólk af öðrum kynþætti er að ræða.  Það á ekki að skipta máli af hvaða kynþætti viðkomandi er þegar hann kemur til landsins en það á auðvitað að skipta máli hvort viðkomandi er á sakaskrá og fyrir hvers konar brot. 

Reynslan hefur sýnt að hingað til lands hafa komið erlendir ríkisborgarar sem hafa framkvæmt ódæðisverk með þeim hætti sem síður hafa tíðkast hér á landi.  Í mörgum tilfellum hefur komið í ljós að viðkomandi eiga langan sakaferil að baki.  Engu að síður hafa viðkomandi komið til landsins og hafið störf án þess að lagaleg fortíð sé könnuð.  Þetta hefur að sjálfsögðu ekkert með kynþætti að gera heldur heilbrigða skynsemi sem snýr að því hvernig við verndum okkar samfélag og þegna fyrir afbrotum slíkra aðila.

Þessi tilhneyging okkar flokkast líklega undir öfuga kynþáttafordóma þ.e. að okkur hættir frekar til að slaka á kröfum ef viðkomandi er af öðrum kynþætti hreinlega af ótta við að við séum að beita kynþáttafordómum.


mbl.is Sungið gegn fordómum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsetning við fréttaflutning

Ég tek undir orð Gísla Baldvinssonar (http://gislibal.blog.is) um fyrirsögn á frétt Agnesar Bragadóttur vegna uppsagna á starfsfólki hjá Glitni.  Því miður sjáum við fréttir alltof oft settar fram í æsifréttastíl sem oftar en ekki getur valdið miklu óöryggi.  Þeir sem fjalla um fjármálafréttir þurfa að passa sig sérstaklega vel á þessu því löngum er þekkt hvaða áhrif fréttaflutningur getur haft á fjármálamarkaði og þ.a.l. afkomu fyrirtækja og afdrif starfsfólks.

Það er því mjög mikilvægt að fréttamenn spyrji sig hvort þeir séu í skrifum sínum að gefa í skyn meira en þeir geta staðið við eða á við rök að styðjast.


mbl.is Uppsagnir hafnar í bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugavegurinn

Umræður um Laugaveginn eru miklar um þessar mundir og langar mig að setja hér inn úrdrátt úr grein sem Kjarval skrifaði í Morgunblaðið árið 1923 skv. upplýsingum á Wikipedia:

"Árið 1923 skrifaði Jóhannes Kjarval grein í Morgunblaðið sem nefndist Reykjavík og aðrar borgir. Í henni telur hann margt Reykjavík til tekna og ræðir þar og meðal um Laugaveginn. Hann segir þar:

Laugavegurinn er svo formfull og laðandi gata, að hreinasta yndi er að ganga hana, ef hún bara væri hreinlegri en hún er og ef hún væri sléttuð og snyrtilega um hana hugsað frá Smiðjustíg alla leið inn að Rauðárlæk, má segja að gatan lokki mann og seyði. Þessi ör fíni halli, sem laðar augað og tilfinninguna inneftir - inneftir - eða niðureftir á víxl.

Hann lýkur greininni svo með því að tala um Reykjavík almennt, og spyr hvað hana vanti, og heldur áfram:

Stórhýsin meðfram götunum munu margir segja, fagran byggingarstíl til þess að öðlast menningarbraginn. Nei, það er ekki það sem skapar menningarbrag. Það er samræmið. Það er vitandi nægjusemin byggð á útreikningi eftir ákveðnum lögum og heppni einstöku sinnum. Það er smekkur, sem skapar menningarbrag, hreinlæti - virðing fyrir sjálfum sér, og ást á einhverju, sem stendur fyrir utan einstaklinginn. Þetta sem allir eiga í sameiningu: sérkennið, þjóðarrétturinn og vísindin. [1]" Tilvitnun lýkur.

Mér finnst mjög áhugavert að sjá viðhorf Kjarvals til tilurðar menningarbrags í beinu samhengi við byggingarstíl og sjá orð eins og smekk, virðingu, ást, sérkenni og þjóðarrétt í því samhengi.  Ef ég hugsa um hvað skapi menningarbrag okkar í dag verður mér fyrst og fremst hugsað til orða eins og fjárhagslegur gróði eða EBITDA og einhverra hluta vegna virðist ekkert annað komast með tærnar þar sem peningar hafa hælana hvað það varðar í okkar samfélagi.  Ef orð eins og virðing og smekkur spretta upp er það yfirleitt tengt við peninga og þá mikla peninga.  Þannig virðist virðing fyrir peningum vera orðin algildur og ráðandi mælikvarði á flest í okkar samfélagi sem er miður að mínu mati. 

Ég veit að mjög margir eru mér sammála hvað þetta varðar en einhverra hluta vegna ber mest á þessari virðingarstefnu, ef kalla mætti svo.  Hetjur nútímans eru eigendur og forstjórar stórfyrirtækja sem hafa hæstu launin, eða þannig birtist okkur það allavega í fjölmiðlum á degi hverjum.  Nú má ekki ætla svo að ég hafi eitthvað á móti því að fyrirtækjum vegni vel og að menn geti greitt há forstjóralaun, síður en svo.  Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af er ójafnvægið sem skapast af einhliða ofdýrkun.

Það sem ég á erfitt með að skilja varðandi gömlu húsin við Laugaveg og í miðbænum er af hverju skipulagsyfirvöld í borginni telja það farsælt að leyfa niðurrif svo margra húsa að jafnast við útrýmingu.  Við sjáum hvað gerðist í Skuggahverfinu en þar er ég fæddur og uppalinn.  Mikill fjöldi húsa var rifinn eða fluttur í burtu og mörg hver voru í prýðisástandi.  Þar átti sér stað eyðing á gamla hverfinu til að rýma fyrir nýjum byggingum og erum við aðeins búin að sjá byrjunina á þeirri stefnu í miðborginni.  Með fullri virðingu fyrir þeim sem búa í stúdentablokkinni á milli Vatnsstígs og Frakkastígs þá er ljóst að um skelfilegt skipulagsslys er þar að ræða en blokkinn lítur í alla staði út eins og fangelsi á kolröngum stað og hefur enga tengingu við umhverfi sitt.  Við megum ekki gleyma því að í öllum tilfellum eru framkvæmdaaðilar fyrirtæki sem leita hagkvæmustu leiða til að fá sem mest fyrir sinn snúð.

Ég vona svo sannarlega að skipulagsyfirvöld forði borginni okkar frá því stórslysi sem er yfirvofandi og að borgarbúar sjái í hendi sér hve mikið ógæfuspor það er að láta blinda virðingu fyrir peningum teyma sig áfram.  Víðsýni og er mjög holl í þessu tilliti.

Hér er ágætis síða sem sýnir hvaða hús við Laugavegin má rífa, á korti og með mynd.  Einnig eru tenglar á teikningar af húsum sem eiga að koma í staðinn.  Smelltu hér.


mitt blog

Já, þetta er bloggið mitt.  Skásta nafnið sem mér datt í hug í fljótu bragði fyrst "svenna" var upptekið.  Ég ætti allavega að muna það.

Hérna ætla ég að blása út varðandi þau málefni sem mér eru hugfangin.  Svo skrifa ég líklega ekkert meira en þessa færslu.  Klassískt.  Sjáum hvað setur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband