Útrýmingarstefna á gömlum húsum í miðborg Reykjavíkur er orðin verulega umfangsmikil en upphaflega átti að hreinsa aðeins til á Laugaveginum þau hús sem ekki voru umhverfi sínu til sóma. Ekki er lengur verið að tala um að fjarlægja einungis þau hús sem ekki eiga sér viðreisnar von heldur hús sem eru í ágætis standi og hefur verið vel við haldið í áranna rás. Í dag horfum við einnig uppá eyðingu Skuggahverfisins nánast á einu bretti sem og stórra svæða á milli Skúlagötu og Laugavegar. Við verðum að átta okkur á því að hjá eigendum lóðanna snýst þetta því miður um fjárhagslegan hagnað en ekki endanlega heildarmynd í samræmi við umhverfið. Það er driffjöðurinn í þeirra málaflutningi.
Stór hópur Íslendinga er fæddur og uppalinn í gömlum húsum í þessum borgarhluta og enn búa mjög margir í slíkum húsum og halda þeim vel við borginni og borgarbúm flestum til sóma og yndisauka. Það sem oft virðist nefnilega gleymast í þessari umræðu er að í miðbænum býr fólk sem aðhyllist það byggðarmynstur sem þar er og einkennist af umræddum 18. og 19. aldar arkitektúr. Það hlýtur að teljast óeðlilegt að ætla að hreinsa enn fleiri slík hús úr miðbænum til að hliðra til fyrir byggingum sem ekki passa inní það umhverfi og geta allt eins staðið hvar sem er annars staðar án þess að orka tvímælis. Af hverju í ósköpunum þarf að ráðast á elstu byggð borgarinnar og sögu hennar sem nú þegar á undir högg að sækja?
Mig langar að snúa dæminu við máli mínu til stuðnings. Ég er þess fullviss að það þætti skjóta skökku við ef fram kæmi tillaga þess efnis að rífa Mjóddina og hluta neðra-Breiðholts til að rýma fyrir nýju hverfi sem yrði samsett úr gömlum flutningshúsum úr miðbænum. Hvað þá að höggvið yrði skarð í gömul úthverfi, núverandi hús rifin niður á stangli og ný timburhús með gamla laginu byggð í staðinn. Það yrði að passa uppá að nýju húsin í gamla stílnum væru alls ekki lík húsunum sem stóðu þar fyrir, ekki úr sama byggingarefni, væru margfalt stærri svo breyta þyrfti deiliskipulagi og notagildi þeirra yrði einnig að vera fullkomlega úr takt við það sem fyrir var til að samlíkingin mín heppnist.
Við megum líka átta okkur á því að flestir þeir sem standa á bak við þessa aðför að miðbænum eru einstaklingar sem hvorki búa í miðbænum né þekkja hann vel. Heimsækja hann mögulega á Menningarnótt og Þorláksmessu ef veður leyfir. Þeir sem vilja ekki sjá gömul hús þurfa ekki að sjá gömul hús frekar en þeir vilja. Það er mjög óréttlátt að ætlast til þess að miðbænum verði breytt í enn eitt úthverfið með verslunarmiðstöð á kostnað sögulegra bygginga og byggingarsögu borgarinnar og íbúum miðborgarinnar sem heillast af slíkum byggingarstíl og umhverfi, til mikils ama. Af þeim eigum við nóg. Við eigum mörg falleg úthverfi og mörg hver hafa sín séreinkenni en öll falla þau undir sama hattinn þegar kemur að byggðarmynstri og byggingarstíl.
Því spyr ég: af hverju að fórna eina miðbænum okkar, sérstöðu hans og byggingarsögu til þess eins að búa til eitt úthverfið í viðbót? Sérstaða gamla miðbæjarins í þessu tilliti hlýtur því að vega þyngra en þörfin fyrir að byggja nýbyggingar sem eru í hrópandi ósamræmi við fyrirætlað umhverfi sitt eins og hvert mannsbarn sér og gætu í raun staðið hvar sem er annars staðar en í gamla miðbænum. Það þarf ekki 6 ára menntun í arkitektúr til að sjá það.
Sjónarhorn beggja verði virt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.